Innlent

Sameining Samfylkingar og VG?

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, telur fátt standa í vegi fyrir að Vinstri grænir og Samfylkingin geti sameinast í einn flokk. Ungir Vinstri grænir vilja hins vegar slíta R-lista samstarfinu og bjóða fram sér næsta vor. Stjórn Ungra Vinstri grænna í Reykjavík sendi í gær frá sér ályktun þar sem hún skorar á stjórn Reykjavíkurfélags Vinstri-grænna að hefja án tafar undirbúning að sérframboði í næstu borgarstjórnarkosningum. Ungir Vinstri grænir vilja sem sagt slíta R-lista samstarfinu að loknu yfirstandandi kjörtímabili. Allt annan tón kvað við hjá formanni Samfylkingarinnar, Össuri Skarphéðinssyni, í viðtali í Íslandi í bítið í morgun. Þar sagði hann að hann teldi stjórnarandstöðuna hafa orðið mjög sterka einingu í fjölmiðlamálinu í fyrra og það gæti haft enn róttækari afleiðingar. „Ég tel miklu meiri líkur á því (í kjölfar fjölmiðlamálsins) að VG og Samfylkinginn nái því marki að verða einn og sami flokkurinn í framtíðinni heldur en að menn töldu áður,“ sagði Össur. Hann bætti við að sjónarmið flokkanna væru orðin svo lík að sameining ætti að vera möguleg. Össur sagði mismunandi skoðanir á Evrópusambandinu og einkavæðingu ekki eiga að þurfa að standa í vegi fyrir því að flokkarnir gætu náð saman. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, segir samstarfið vissulega hafa gengið vel en honum finnst tal um sameiningu ekki vera inni í myndinni - þetta séu sjálfstæðir flokkar með mismunandi áherslur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×