Innlent

Óljóst með hrefnuveiðar í sumar

Enn hefur ekkert verið ákveðið um hrefnuveiði í sumar og ljóst er að ekkert verður úr veiðum á sandreyðum og langreyðum í sumar, þar sem langan undirbúning þarf til þeirra veiða. Ljóst er því að vísindaáætlunin, sem sett var fyrir þremur árum, um að veiða 200 hrefnur, 100 sandreyðar og 200 langreyðar mun taka mun lengri tíma en áætlað var, ekki síst í ljósi þess að úr þessu er víst að hvorki sandreyðar né langreyðar verða veiddar í ár. 25 hrefnur voru veiddar í fyrra, ellefu færri en árið áður, þegar veiðarnar hófust aftur eftir langt bann. Hrefnuveiðivertíðin í Noregi hófst í gær og munu umþað bil 30 skip stunda veiðarnar enda kvótinn meiri en áður, eða rúmlega 700 dýr. Þrátt fyrir mikinn áhuga á veiðunum hefur gengið illa að selja hrefnukjötið á norskum markaði undanfarin ár líkt og hér á landi. Birgðir hafa hrannast upp í Noregi og loks verið fargað fyrir opinbera styrki. Hrefnuveiðimenn eru hins vegar bjartsýnir að þessu sinni þar sem nokkrar verslanakeðjur ætla nú í fyrsta skipti að taka hrefnukjöt til sölu og til stendur að vinna kjötið meira fyrir neytendur en hingað til. Hrefnukjöt hefur verið selt í stórmörkuðum hér á landi en sala gengið treglega enda er hrefnukjötið hætt að vera þáttur í matarvenjum hér eins og í Noregi eftir langt veiðibann og að líkindum á gagnrýni á hvalveiðar einhvern þátt líka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×