Innlent

Fjárfestar ákveði hvar álver séu

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segir að það verði ekki hún heldur fjárfestar sem ákveði staðsetningu næsta álvers á Íslandi. Í framhaldi af þremur skoðanakönnunum sem iðnaðarráðuneytið lét gera um afstöðu Skagfirðinga, Eyðfirðinga og Þingeyinga til álvers spurði Gunnar Örlygsson iðnaðarráðherra hvort til greina kæmi að gera sams konar kannanir um viðhorf íbúa í Suðurkjördæmi. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sagði að fyrirtæki hefðu gefið sig fram sem hefðu áhuga á að fjárfesta í álveri á Norðurlandi og þess vegna væri verið fjalla um Norðurland. Ef slíkt hið sama kæmi upp um önnur landsvæði væri ekkert því til fyrirstöðu að gera sambærilega könnun á þeim svæðum. Gunnar spurði þá hverjir ættu að ráða staðsetningu næsta álvers á Ísland, hvort það ættu að vera athafnamenn frá Bandaríkjunum eða annars staðar að í heiminum eða Íslendingar sjálfir. Hann benti á að í Suðurkjördæmi væri mesta orkuframleiðsla í landinu en enginn orkufrekur iðnaður og því spurði hann ráðherra aftur hvort hann myndi beita sér fyrir því að þessir kostir yrðu skoðaðir alvarlega í framtíðinni og að næsta álver yrði í Suðurkjördæmi. Valgerður svaraði því til að hún teldi að Gunnar gerði óþarflega mikið úr valdi hennar með því að segja að hún ákveddi hvar næsta álver yrði. Það væri ekki þannig heldur væri það í höndum fjárfestisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×