Innlent

Neyðarfundur um ástand þorsksins

Guðjón Hjörleifsson, formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, varð í gær við óskum stjórnarandstæðinga í nefndinni um neyðarfund í dag með forstjóra Hafrannsóknastofnunar. "Við ætlum að ræða nýjar upplýsingar stofnunarinnar um bágborið ástand þorskárganga undanfarin ár, en stofnunin vill skýra nokkur atriði betur", segir Guðjón Hjörleifsson formaður nefndarinnar. "Í næstu viku verða nefndarfundir á Alþingi og þá gefst okkur kostur á að ræða þessar upplýsingar nánar innan sjávarútvegsnefndar." Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslynda flokksins krafðist í gær neyðarfundar í sjávarútvegsnefnd vegna málsins. Hann segir deginum ljósara að fiskveiðistjórnunin sé árangurslaus og vanhæfir menn séu við stjórnvölinn. Stofnmælingar Hafrannsóknastonunarinnar leiða í ljós að stofnvísitala þorsksins er um 16 prósentum lægri nú en fyrir ári. Þær benda jafnframt til þess að árgangarnir 2004 og 2001 séu mjög lélegir, 2003 árgangurinn frekar lélegur en árgangurinn frá árinu 2002 sé nálægt meðallagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×