Innlent

Samstaða sé um lagabreytingu

Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, segir að unnið sé að breytingum á eftirlaunalögunum í forsætisráðuneytinu. Þverpólitísk samstaða sé um að breyta ákvæði sem hafi einnig verið fyrir hendi í eldri lögum sem gefi fyrrverandi ráðherrum færi á að taka full eftirlaun ráðherra þótt þeir séu enn í fullu starfi hjá hinu opinbera. Hann varar við því að ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins í fréttum Stöðvar 2 á föstudag séu oftúlkuð. Sjálfstæðismenn sem rætt var við í dag töldu hinsvegar enga ástæðu til breytinga. Breytingar á eftirlaunalögunum um síðustu áramót höfðu það í för með sér að fyrrverandi ráðherrar geta nú þegið eftirlaun allt frá 55 ára aldri. Sá möguleiki var fyrir hendi í eldri lögum að menn gætu þegið eftirlaun ráðherra og verið jafnframt í fullu starfi en sá hópur stækkaði til muna við breytinguna. Sjö fyrrverandi ráðherrar þáðu í fyrra full eftirlaun ráðherra ásamt því að vera í forstjórastarfi hjá ríkinu. Tveir fyrrverandi ráðherrar bættust svo í hópinn eftir að umræðan komst í hámæli eftir áramótin. Breytingar á eftirlaunalögunum hafa ekki komið til umræðu í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þær upplýsingar hafa þó fengist úr forsætisráðuneytinu að verið sé að vinna að útfærslu slíkra breytinga. Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því svo óvænt yfir á föstudag að hann teldi enga ástæðu til að breyta lögunum. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra vildi ekki koma í viðtal í dag og svara því hvort skilja mætti ummæli formanns Sjálfstæðisflokksins í fréttum Stöðvar 2 á föstudag svo að óeining væri innan ríkisstjórnarinnar um málið. Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, segir hins vegar að enn sé unnið að breytingum í forsætisráðuneytinu. Forsendur séu óbreyttar enda hafi það komið fram á þingi á sínum tíma að þverpólitískur vilji væri fyrir breytingunum. Hjálmar segir að menn megi ekki oftúlka orð utanríkisráðherra og verði að greina á milli tveggja mála, annars vegar eftirlaunafrumvarpsins sem fram hafi komið fyrir rúmu ári og hafi verið samþykkt og hins vegar eldra ákvæðis sem komið hafi í ljós þegar seinna frumvarpið hafi verið til umfjöllunar. Það sé það ákvæði sem menn hafi virst sammála um að breyta og hann viti ekki betur en að það sé í eðlilegri vinnslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×