Innlent

Áunninn réttur stjórnarskrárvarinn

"Menn þurfa náttúrlega að fara varlega þegar kemur að lífeyrisréttindum," segir Eiríkur Tómasson lagaprófessor. Hann segist ekki hafa skoðað sérstaklega mögulegar breytingar á lögum um eftirlaun þingmanna og ráðherra, en telur þó nýlegan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu veita ákveðna vísbendingu. Í október komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu hafi verið óheimilt að svipta fyrrverandi sjómann lífeyrisréttindum án þess að bætur kæmu fyrir. Hann segir sérstaka ástæðu til aðgátar þegar lífeyristaka er hafin. "Eitt er að eiga sér áunninn lífeyri og annað þegar menn fara að taka hann." Hann bendir á að þegar lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru sett hafi biðlaunaréttur verið skertur. "Ég veit ekki betur en Hæstiréttur hafi staðfest að það hafi staðist eignarréttarákvæði og því ljóst að hægt er að skerða þennan rétt þó áunninn sé. Það er hins vegar erfiðara að gera það ef menn eru byrjaðir að fá lífeyrinn." "Áunninn réttur er talinn stjórnarskrárvarinn eignarréttur og ekki talið að honum sé hægt að breyta aftur í tímann án þess að bætur komi fyrir," segir Atli Gíslason, lögmaður, sérfræðingur í vinnurétti og varaþingmaður Vinstri-grænna. Hann segist þeirrar skoðunar að frumvarp um lífeyrisréttindi ráðherra og þingmanna "hefði betur aldrei verið samþykkt" og segir gagnrýnivert hversu lítinn undirbúning málið hafi fengið. "Við erum almennt ekki með góða löggjafarstarfsemi. Inn eru keyrð mál með stuttum fyrirvara og fá litla umfjöllun," sagði hann og kvað annan hátt á í þeim löndum sem við berum okkur saman við. "Núna virðist Halldór hins vegar ætla að vanda sig við að breyta þessu og það er vissulega fagnaðarefni. Lögin eru meingölluð, að menn séu komnir á fullan lífeyri starfandi hjá ríkinu á fullum launum. Það er ekki eðli lífeyrisgreiðslna að borga mönnum lífeyri fyrr en þeir eru komnir af vinnumarkaði." Atli segir hins vegar umdeilanlegt hvort dómur Mannréttindadómstólsins frá því í október hafi mikið fordæmi. "Ekki miðað við forsendur hans sem snerust um á hve fáum breytingin bitnaði. Almennar skerðingar geta gengið bótalaust, ef lífeyrissjóður stendur illa er til dæmis lagaskylda að bregðast við."
Atli Gíslason, lögmaður og varaþingmaður.Mynd/GVA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×