Innlent

Stimpilgjald verði afnumið

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, Pétur Blöndal, hyggst freista þess að ná samstöðu meðal þingflokka um að frumvarp Margrétar Frímannsdóttur um afnám stimpilgjalds við endurfjármögnun lána verði lögfest fyrir sumarfrí Alþingis. Það er að ráðast þessa dagana í nefndum Alþingis hvaða þingmál fá brautargengi. Pétur Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, vinnur að því að nokkur þingmannafrumvörp nái í gegn og nefnir t.d.frumvörp Einars K. Guðfinnssonar um vernda minni hluthafa í hlutafélögum og um að milda refsingar þegar greiðsluerfiðleikar leiða til vanskila á vörslusköttum svo og frumvarp Margrétar Frímannsdóttur um afnám stimpilgjalds af lánum við endurfjármögnun. Pétur segir mörg mjög góð mál hjá nefndinni, bæði frá stjórnarþingmönnum og stjórnarandstæðingum, og honum sé alveg sama hvaðan góð mál komi, þau þurfi að skoða. Hann vilji skoða nokkur þeirra í góðu tómi með þingflokkunum. Mikil umræða var um stimpilgjöld í vetur eftir að bankarnir fóru að bjóða hagstæðari íbúðalán. Mörgum hefur sviðið að þurfa að greiða til ríkisins eitt og hálft prósent í stimpilgjald við þinglýsingu lána. Frumvarp Margrétar, sem Pétur vill að verði samþykkt, gerir ráð fyrir að stimpilgjald falli niður þegar um endurfjármögnun er að ræða. Pétur segir þetta spurningu um að auka samkeppni. Ef fólk skuldi einum banka og skuldubreyti svo hjá honum borgi það ekki stimpilgjald en ef farið sé í annan banka til að skuldbreyta þá þurfi fólk að borga gjaldið. Þetta þurfi að laga. Pétur segir að það þurfi þó að fara varlega í þetta til þess að hella ekki olíu á eldinn. Pétur segir hina miklu skuldbreytingar síðustu mánaða jákvæðar því þær létti greiðslubyrði almennings sem þannig njóti vaxtalækkunarinnar. Hún sé ein mesta hagsbót til almennings á Íslandi í lengri tíma og afleiðing af frelsi í bankaviðskiptum og víðar. Menn verði þó að stíga varlega niður í þessum efnum svo ekki verði neinar kollsteypur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×