Innlent

Hækkun tekjumarka baráttumál lengi

Arnþór Helgason, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands fagnar ummælum Karl Steinars Guðnasonar, forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins þess efnis að öryrkjum verði gert kleift að afla sér hærri tekna án þess að örorkubæturnar skerðist eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Arnþór segir að Öryrkjabandalagið hafi lengi barist fyrir þessu sama og segir liðsstyrk Tryggingastofnunar mikilvægan. "Þegar lögin um tekjutengingarauka voru sett árið 2001 lagði Öryrkjabandalagið ofuráherslu á að sett yrði frítekjumark vegna tekjutryggingaraukans. Okkur var heitið því að mæltum við með tekjutryggingaraukanum þá skyldi komið til móts við fólk með slíku frítekjumarki. Það loforð var svo ekki efnt." Arnþór segir annað mikilvægt í þessu sambandi og það sé fólk í sambúð. Forkastanlegt sé að sambúðarfólk tapi rúmlega 40 þúsund krónum hvern mánuð vegna þess eins að vera skráð í sambúð. "Þarna er um of mikla tekjutengingu að ræða enda er um stóran bita að ræða fyrir flesta. Mér finnst aðfinnsluvert að Þjóðkirkjan og aðrir trúarhópar hérlendis taki þetta ekki upp og ekki er einu sinni ályktað um málið á kirkjuþingi. Hjónabandslög eru öryrkjum óttalega fjandsamleg."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×