Innlent

Mótmæla skiptingu vegafjár

Bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu ásamt borgarstjóra mótmæla skiptingu vegafjár. Þeir afhentu samgöngunefnd Alþingis sameiginlega athugasemdir sínar í byrjun vikunnar. Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir að bæjarstjórarnir og borgarstjóri geri alvarlegar athugasemdir við það að höfuðborgarsvæðið fái einungis fimmtung vegafjár til samgöngubóta. "Menn hafa miklar áhyggjur af vaxandi umferðarþunga þegar horft er til stofnbrauta og þjóðbrauta til og frá höfðuborgarsvæðinu. Þegar í febrúar var afstaða okkar ljós, en þá áttum við fund um samgöngumálin með þingmönnum og fulltrúum Vegagerðarinnar," segir Lúðvík. Gunnar I. Birgisson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og verðandi bæjarstjóri í Kópavogi fagnar framtaki bæjarstjórannna. Hann lagði fram eigin vegaáætlun í þingflokki Sjálfstæðisflokksins í fyrradag, en þar voru samgöngumálin til umræðu. Samgönguáætlun er til umræðu í samgöngunefnd Alþingis í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×