Erlent

Töpuðu fyrir fyrrum samflokksmanni

Tvær konur í framboði fyrir Verkamannaflokkinn þurftu að lúta í lægra haldi fyrir fyrrverandi samflokksmönnum sínum í kjördæmum þar sem flokkurinn fékk meira en helming greiddra atkvæða í síðustu þingkosningum. Oona King missti þingsæti sitt fyrir Bethnal Green til George Galloway, fyrrum þingmanns Verkamannaflokksins, sem bauð sig fram fyrir framboðslistann Respect. Oona er ung svört kona sem kom inn á þing 1997 og þótti eiga mikla framtíð innan flokksins. Í Blaenau Gwent í Wales tókst Maggie Jones ekki að komast inn á þing, en fylgi flokksins í kjördæminu var yfir 70 prósent í kosningunum 2001 og var það talið eitt öruggasta þingsæti Verkamannaflokksins. Heimamenn voru þó ekki sáttir við að höfuðstöðvar flokkisins buðu heimamenn einungis upp á kvenkyns frambjóðendur og kusu Peter Law, sem gekk úr flokknum eftir deilur um framboðslistann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×