Innlent

Sjálfstæðisflokkur fagnar Gunnari

Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins fagnar inngöngu Gunnars Örlygssonar þingmanns í þingflokk Sjálfstæðisflokksins. Gunnar sagði sig úr Frjálslynda flokknum í kvöld. "Okkur þykir ánægjulegt að Gunnar hefur óskað eftir því að taka þátt í okkar störfum og þingflokkurinn samþykkti samhljóða inntökubeiðni hans og innkomu í okkar raðir," sagði Davíð eftir stuttan þingflokksfund seint í kvöld. Gunnar hefur eins og aðrir stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýnt stjórnina og stjórnarflokkana. "Þannig er það en hafi menn hins vegar hlustað grannt á hans athugasemdir hafa þær fallið nær okkur en sumra hans fyrrum félaga í Frjálslynda flokknum. Það er ekki nokkur vafi að hann hefur jafnvel staðið okkur nær en þeim," segir Davíð.  Hann bætir við að innganga Gunnars styrki ríkisstjórnina því meirihluti hennar aukist á þinginu í 35 þingmenn gegn 28 þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Gunnar verður fullgildur þingmaður Sjálfstæðisflokksins og lýtur sömu lögmálum og aðrir varðandi setu í þingnefndum segir Davíð Oddsson. Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins kvaddi sér hljóðs eftir að Gunnar hafði gert grein fyrir ákvörðun sinni á þingi seint í gærkvöldi. Sigurjón vitnaði orðrétt í ræðu Gunnars fyrir fáeinum dögum þegar hann talaði sem þingmaður Frjálslynda flokksins: "Hér er um hápólítískt mál að ræða.Umræðan öll og sá skýri klofningur sem er á milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu í málinu ítrekar og staðfestir pólítískar áherslur stjórnarliða sem einatt á síðustu árum hafa leitt til misskiptingar og ójöfnuðar í þjóðfélaginu," sagði Gunnar. Sigurjón sagði að Gunnar skuldaði kjósendum Frjálslynda flokksins skýringar á sinnanskiptum sínum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×