Erlent

Í olíuviðskiptum við Saddam?

„Alger fjarstæða og pólitískt þrugl,“ segir breski þingmaðurinn George Galloway en Bandaríkjaþing sakar hann um að hafa hagnast á einkaviðskiptum með olíu fyrir Saddam Hussein. Franskur þingmaður og fyrrverandi ráðherra liggur einnig undir grun. Bandarísk þingnefnd birti í gær skýrslu um spillingu í tengslum við olíusöluáætlun Sameinuðu þjóðanna í Írak. Tveir menn eru þar nefndir til sögunnar og því haldið fram að þeir hafi hvor um sig fengið nokkrar milljónir olíutunna í umboðssölu frá Saddam. Gefið er í skyn að þetta hafi verið nokkurs konar mútugreiðslur; með þessu hafi Saddam keypt sér vestræna bandamenn. Þetta mál hefur valdið miklu fjaðrafoki í Bretlandi og Frakklandi enda eru báðir mennirnir sem nefndir eru í skýrslunni afar þekktir stjórnmálamenn og báðir sitja á þingi í sínum heimalöndum. Annar er Charles Pasqua. fyrrverandi innanríkisráðherra Frakka, og hinn er George Galloway, fyrrverandi þingmaður breska Verkamannaflokksins. Galloway hefur lengi verið þyrnir í augum Blairs, enda hatrammur andstæðingur Íraksstríðsins. Hann bauð sig fram í nafni nýs flokks í kosningunum í síðustu viku og sigraði með yfirburðum í sínu kjördæmi: Bæði Pasqua og Galloway vísa þessum ásökunum bandarísku þingnefndarinnar alfarið á bug. Sá síðarnefndi segir þetta pólitískt bragð, framkvæmt af hálfu nefndar Bush í Washington, og fjölmiðlar ættu ekki að gefa því þann gaum sem raun beri vitni. „Tilhugsunin um að sá stjórnmálamaður sem mest er fylgst með á Bretlandi hafi verið í aukastarfi á laun í olíuviðskiptum upp á marga milljarða er fjarstæðukennd,“ segir Galloway.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×