Fastir pennar

Á ströndinni

Einhvern tíma skrifaði ég grein um strandlífið sem ég missti af þegar ég var ungur. Á þeim tíma var mig aðallega að finna á söfnum; ég þræddi söfnin og taldi mig hafa svikist um ef ég stoppaði ekki við hvert einasta verk. Ég fór á leiksýningar og óperur, tónleika, þræddi þetta allt, sá Karl Böhm stjórna Vínarfílharmóníunni, Albert Finney leika Macbeth, Barböru Sukowu í Túskildingsóperunni – milli þess var ég í Haus der Kunst, Uffizi, Vatíkaninu, Prado. Nú fer ég aldrei á söfn. Í mesta lagi hleyp ég inn til að skoða eina mynd. Ég vil vera auli á strönd. Það sem meira er – ég sé eftir því að hafa ekki verið ungur og sæmilega fallegur á strönd á þessum árum, sólbrúnn, í hörskyrtu og sandölum. En þá fór ég aldrei á strendur; ekki að ég liti niður á það sérstaklega, ég vissi bara ekki af svoleiðis lífi. --- --- --- Einu sinni hitti ég Gérard Lemarquis í París. Ég var þar með nokkrum vinum mínum. Hann sagði okkur að fara út á ströndina í Normandí - þar myndi ég sjá heiminn sem Proust skrifaði um. Í Deauville og þar í kring. Við fórum þangað. Það rigndi og blés allan tímann, ströndin var grýtt. Maður hefði betur farið suður. Núorðið fer ég í sjóinn eins oft og ég get. Ég sé mig í anda með sætum stelpum á ströndinni – þær eru í bikini, með ódýra skartgripi, ökklabönd, sveipaðar indverskum sjölum þegar við sitjum við strandbarina á kvöldin. En nú er ég með bumbu. Engin stelpa lítur við mér. En þetta er betra en ekkert. Ég fæ þó smá athygli út á Kára. --- --- --- Tengdaforeldrar mínir voru í fyrstu sólarlandaferðinni. Þetta var á árunum upp úr 1960, þegar Guðni var með Sunnu og Ingólfur með Útsýn. Í blöðunum var sífellt verið að skrifa um Simon Spies og Tjæreborgarprestinn í Danmörku; við vorum enn dálítið mikil nýlenda í huganum. Þau segja mér að þegar komið var út í flugvél hafi margir verið orðnir svo fullir að þeir gátu ekki hangið uppi; á þessum árum var byrjað af krafti á barnum í gömlu flugstöðinni. Margir karlarnir voru í jakkafötum með lakkrísbindi – mættu þannig á ströndina á Spáni. Það voru sagðar sögur af konum sem flugu út með Bragakaffi í töskunni – gátu ekki hugsað sér að vera án þess. Jafnvel vatn líka – vatninu í útlöndum var ekki treystandi. Svo brunnu allir og þurftu að liggja emjandi inni á hótelherbergi. Þá tíðkaðist að bera á sig Coppertone steikingarolíu til að fá betri brúnku – engin sólvörn númer 30 á þeim árum.





×