Erlent

Sjónarvottar segja fleiri látna

Röð sprenginga varð í London í morgun og segir breska útvarpið, BBC, að árás hafi verið gerð á borgina. Yfirvöld vilja ekki segja neitt um hvað kann að hafa gerst en engir aðrir velkjast í vafa um að hryðjuverkaárásir hafi verið gerðar. Fjöldi fólks hefur slasast og og staðfestu hefur verið að tveir féllu. Sjónarvottar sem breskir fjölmiðlar ræða við greina frá mun fleiri föllnum. Ljóst er að árásunum var beint að almenningssamgöngukerfi borgarinnar, sem löngum hefur verið talinn einn veikast hlekkurinn í öryggiskeðjunni þar. Hryðjuverkasérfræðingur sem Sky ræddi við sagði ummerkin bera þess vott að einn hópur hefði skipulagt árásirnar þar sem sprengjurnar sprungu í röð. Staðfest hefur verið að sprengingar urðu á lestarstöðvunum Aldgate, Edgware Road, King's Cross, Old Street og Russel Square stöðvunum auk þess sem tvær sprengingar urðu á Tavistock-torgi, eftir því sem virðist báðar í strætisvögnum þar. Þrjátíu farþegar voru í hvorum um sig. Sprengingarnar urðu í röð á háannatíma í morgun og streymdi fólk út úr neðanjarðarstöðvum, blóðugt og illa leikið á köflum. Við Aldgate-stöðina segja læknar að níutíu manns hafi hlotið aðhlynningu. Þar varð fyrsta sprengingin rétt fyrir klukkan níu á staðartíma. Fregnir af sprengingunum eru enn nokkuð óljósar, ekki síst þar sem að lögregluyfirvöld vildu í fyrstu ekkert segja um hvað hefði gerst. Jafnvel var borið við rafmagnstruflunum og árekstri tveggja lesta þegar ferðir neðanjarðarlesta stöðvuðust. Nú segir lögreglustjórinn í London hins vegar að hann hafi af því töluverðar áhyggjur að árásirnar hafi verið samhæfðar. Tony Blair er á fundi G-8 ríkjanna í Gleneagles í Skotlandi og hugðust nú skömmu fyrir fréttir ekki snúa aftur til London heldur fylgjast með í Gleneagles.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×