Erlent

Talað um fjórar sprengingar

Ekki færri en fjörutíu og fimm fórust í hryðjuverkaárásunum í London í morgun. Heimildir Reuters-fréttastofunnar herma að auk fjörutíu og fimm sem staðfest er að fórust séu í það minnsta þúsund slasaðist. Á annað hundrað slösuðust alvarlega. Breska útvarpið greinir frá skelfilegum aðstæðum á vettvangi: fólk sem misst hefur útlimi og er mjög illa leikið. Samkvæmt nýjustu fréttaskeytum voru sprengingarnar fjórar, en fyrr í dag var talið að þær hefðu ekki verið færri en sex. Við Russal Square, skammt frá King's Cross, lestarstöðinni, segja sjónarvottar að þakið hafi bókstaflega þeyst af tveggja hæða strætisvagni þegar sprenging varð í honum. Að auki sprungu sprengjur í þremur lestum í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar. Sjónarvottar segjast hafa séð fjölda líka skammt frá. Áður óþekktur hópur sem kallar sig "Leynihóp heilags stríðs al-Qaida í Evrópu" lýsti árásunum á hendur sér í yfirlýsingu sem birt var á íslamskri vefsíðu, en þetta hefur ekki fengist staðfest. Böndin berast þó að al-Qaida þar sem ummerki þykja minna töluvert á árásirnar í Madríd fyrir einu og hálfu ári síðan. Ekki er ljóst hvort að tímasetning árásanna hefur eitthvað með fund G-8 leiðtoganna í Gleneagles í Skotlandi að gera en ljóst er að athygli fjölmiðla beindist nú þegar að Bretlandi og London, bæði vegna fundarins og þess að London var í gær valin ólympíuborgin 2012.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×