Sport

Els frá í 4 mánuði

Suður-afríski kylfingurinn, Ernie Els, verður frá keppni í allt að 4-5 mánuði en hann slasaðist illa á hné fyrir hálfum mánuði þegar hann var í siglingu með fjölskyldu sinni. Els sem er þriðji efsti kylfingurinn á heimslistanum gekkst undir aðgerð á fimmtudaginn sl. en hann sleit fremri hnjálið í vinstra hné. Els missir því af síðasta stórmóti ársins, USPGA-meistaramótinu sem og keppninni um Forsetabikarinn og í heimsmótinu í holukeppni, þar sem hann á titil að verja. Skurðlæknir kylfingsins segir að hann þurfi að gangast undir aðra aðgerð þegar bólgan hjaðnar en ekki er hægt að segja nákvæmlega hvenær það verður. Eftir það munu líða 8-10 vikur þar til hann getur farið að sveifla kylfunni aftur en aldrei minna en 16-18 vikur munu líða þar til hann getur hafið keppni að nýju. Vonast bjartsýnir menn nú til  að kylfingurinn snúi aftur áður en árið er úti. En Els er jarðbundinn maður og er alls ekkert að kveinka sér meira en efni standa til. "Augljóslega er tímasetningin á þessu óheppileg en við skulum bara horfast í augu við eitt. Það er ekki til neitt sem heitir góð tímasetning þegar maður meiðist." sagði Els.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×