Sport

Ólöf náði sér ekki á strik í gær

Kylfingurinn Ólöf María Jónsdóttir náði sér ekki nægilega vel á strik á fyrstu tveimur hringjunum á Opna finnska meistaramótinu í Helsinki um helgina, en hún lék á ellefu höggum yfir pari vallarins. Fyrri hringurinn var örlítið betri, en þá lék Ólöf á fimm höggum yfir pari, en annan hringinn á sex höggum yfir pari vallarins. Ólöf sagði aðstæðurnar í Helsinki hafa verið erfiðar þar sem mikill vindur setti mark sitt á spilamennsku kylfingana. "Ég er nú ekkert sérstaklega ánægð. Ég var óheppin með veðrið því annar hópurinn fékk ágætt veður en hinn hópurinn, sem ég var í, fékk mikinn vind sem erfitt var við að eiga. Ég reyndi eins og ég gat að hafa stjórn á spilamennskunni en það var erfitt. Aðstæðurnar leyfðu manni ekki að gera mörg mistök og því fór þetta ekki eins vel og hefði viljað." Ólöf var í 72.sæti þegar hún lauk keppni í gær og náði ekki að komast í gegnum niðurskurðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×