Erlent

Mikill fjöldi þarf neyðarhjálp

Allt í rúst Þorpsbúi í Yogyakarta á Jövu í rústum keramikverslunar.fréttablaðið/ap
Allt í rúst Þorpsbúi í Yogyakarta á Jövu í rústum keramikverslunar.fréttablaðið/ap

 Alþjóðlegt neyðarhjálparlið hafði í gær ekki náð til afskekktari staða á svæðinu sem verst varð úti í jarðskjálftanum á Jövu um síðustu helgi. Indónesísk yfirvöld sögðu í gær að staðfestur fjöldi fólks sem fórst af völdum skjálftans væri kominn í 6.200 manns.

Um hálf milljón manna er á vergangi eftir skjálftann, enda eyðilagði hann híbýli fólks á stóru svæði. Alþjóðleg aðstoð barst tiltölulega fljótt, enda er enn unnið að uppbyggingu eftir fyrri hamfarir í landinu, ekki síst flóðbylgjuna miklu um jólin 2004. En fólk í afskekktari þorpum kvartar yfir því að engin hjálp hafi borist því. Mikil úrkoma þessa dagana bætir heldur ekki úr skák fyrir heimilislaust fólkið.

Staðfest mannfall af völdum skjálftans hækkaði í 6.234 manns eftir að tilkynnt var um fund 388 líka til viðbótar í afskekktari byggðum Bantúl-héraðs, sem varð verst úti í hamförunum. Talsmaður indónesíska félagsmálaráðuneytisins greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×