Erlent

Brazauskas hefur sagt af sér

Brazauskas á ríkisstjórnarfundi Algirdas Brazauskas sagði af sér ásamt ríkisstjórninni í fyrradag. Zigmantas Balcytis stýrir bráðabirgðastjórn uns ný verður mynduð.
Brazauskas á ríkisstjórnarfundi Algirdas Brazauskas sagði af sér ásamt ríkisstjórninni í fyrradag. Zigmantas Balcytis stýrir bráðabirgðastjórn uns ný verður mynduð.

Ríkisstjórnin í Litháen er fallin eftir að einn stjórnarflokkanna sagði sig úr stjórninni. Algirdas Brazauskas forsætisráðherra sagði formlega af sér á miðvikudag, en Zigmantas Balcytis fjármálaráðherra var fenginn til þess að stýra bráðabirgðastjórn þangað til ný ríkisstjórn tekur við.

Ég sé enga möguleika til þess að gegna skyldum mínum og segi því af mér ásamt ríkisstjórninni, sagði Brazauskas forsætisráðherra á miðvikudag eftir að ljóst var að Verkamannaflokkurinn væri genginn úr stjórnarsamstarfinu.

Verkamannaflokkurinn hefur yfir 31 þingsæti að ráða á þinginu, sem er skipað 141 þingmanni. Stjórnina skorti þó nokkuð til þess að hafa meirihluta á þingi, þannig að Brazauskas átti engan kost annan en að segja af sér.

Valdas Adamkus forseti hefur nú tveggja vikna frest til þess að gera tillögu um nýjan forsætisráðherra, sem síðan verður borin undir þingið.

Verkamannaflokkurinn sagði sig úr stjórnarsamstarfinu eftir að þrír af fimm ráðherrum flokksins höfðu verið ásakaðir um að hafa misnotað fjármuni bæði ríkis og flokks.

Ríkisstjórnin hafði áður orðið fyrir áfalli í apríl síðastliðnum þegar annar stjórnarflokkur, Nýtt bandalag, dró sig út úr stjórninni til þess að mótmæla því að leiðtogi þess flokks, Arturas Paulauskas, hafi verið rekinn úr stöðu þingforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×