Erlent

Samið eftir málamiðlun

Recep Tayyip Erdogan Forsætisráðherra Tyrklands var í Króatíu í gær, öðru landi sem er að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Recep Tayyip Erdogan Forsætisráðherra Tyrklands var í Króatíu í gær, öðru landi sem er að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. MYND/ap

Viðræður um fyrsta af 35 efnisköflum aðildar­samninga Tyrkja við Evrópusambandið hófust loks í gær, eftir að leysa tókst deilu sem stefndi í að valda því að ekkert yrði úr þessum áfanga í bili.

Stjórnvöld á Kýpur gerðu þá kröfu að Tyrkir fullgiltu fyrst samning um að færa tolla­bandalagssamninga sína út til nýju ESB-aðildarríkjanna, sem gengu í sambandið vorið 2004, en Kýpur var þar á meðal. Því hafa Tyrkir hafnað til þessa á þeim forsendum að það fæli í sér óbeina viðurkenningu þeirra á stjórn Kýpur-Grikkja. Tyrkir eru eina þjóðin sem viðurkennir stjórn Kýpur-Tyrkja á norðurhluta eyjarinnar.

Málamiðlunin sem náðist var sú að fulltrúar Evrópusambandsins í viðræðunum við Tyrki áminntu þá um skuldbindingu sína til að taka upp stjórnmálasamskipti við stjórnina í Nikosíu. Á móti féllust ráðamenn í Nikosíu á að falla frá kröfu um að viðræðurnar um þennan fyrsta efniskafla, sem varðar vísinda- og tæknimál, yrðu ekki afgreiddar á einum degi eins og áform voru annars uppi um.

Þetta er fyrsti efniskaflinn af 35 sem Tyrkir verða að ljúka áður en þei r geta gert sér vonir um að fá inngöngu í sambandið. Gert er ráð fyrir að viðræðurnar taki minnst áratug.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×