Erlent

Bjartsýni á samninga

Solana og Plassnik Javier Solana talar á blaðamannafundi í Lúxemborg í gær. Ursula Plassnik, utanríkisráðherra Austurríkis sem gegnir formennskunni í ESB, hlýðir á.
Solana og Plassnik Javier Solana talar á blaðamannafundi í Lúxemborg í gær. Ursula Plassnik, utanríkisráðherra Austurríkis sem gegnir formennskunni í ESB, hlýðir á. MYND/ap

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna 25 sögðust í gær bjartsýnir á að Íransstjórn muni gefa jákvætt svar í þessari viku við sáttatilboði stórveldanna sex, sem Javier Solana, utanríkismálastjóri ESB, kynnti fyrir ráðamönnum í Teheran í síðustu viku.

Sáttatilboðið, sem lagt var fram í nafni Bretlands, Bandaríkjanna, Frakklands, Þýskalands, Rússlands og Kína, felur í sér að Írönum er boðinn ýmis ávinningur gegn því að þeir hætti að minnsta kosti tímabundið auðgun úrans, en það er ferli sem hægt er að beita bæði til að framleiða eldsneyti til raforkuframleiðslu í kjarnorkuverum, en einnig til að framleiða kjarnorkusprengjur.

Solana sagði á utanríkisráðherrafundi ESB í Lúxemborg í gær að ráðamenn í Teheran hefðu nú þegar breytt um orðfæri í yfirlýsingum um kjarnorkudeiluna. Við beitum okkur áfram fyrir því að halda hitastiginu [í orðaskiptunum við Írana] eins lágu og mögulegt er, tjáði Solana fréttamönnum.

Solana sagði að alþjóðasamfélagið hefði boðið Írönum mjög víðtækan ávinning. Ég vona að þeir svari með jákvæðum hætti. Frekari viðræður við íranska ráðamenn væru framundan, að sögn Solanas. Staðan er erfið, en ég er ekki svartsýnn, bætti hann við.

Talsmenn Íransstjórnar ítrekuðu á sunnudag að þeir myndu ekki flýta sér að gefa afgerandi svör. Hamid Reza Asefi, talsmaður utanríkisráðuneytisins, sagði að stjórnin myndi taka eins mikinn tíma og hún telji sig þurfa til að íhuga tillögurnar. Hann sagði þær innihalda ásættanleg atriði, en tók ennfremur fram að í þeim væru vafasöm atriði. Þá væri sumt í þeim óljóst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×