Erlent

Engin þörf er fyrir varnarlið á Íslandi

"Það er engin þörf fyrir herafla á Íslandi," segir Mark Stanhope aðmíráll, sem er næstæðsti yfirmaður herafla NATO í Bandaríkjunum.

Hann segist ekki sjá neina ástæðu til að geyma herflugvélar á Íslandi þar sem þær koma að engum notum. Miklu nær sé að hafa þær til taks þar sem þörf er á þeim og taka þá ákvarðanir um það hverju sinni út frá þörf Atlantshafsbandalagsins í heild.

Hann sagðist ekki vita til þess að Íslandi stafaði nein sérstök hætta af hryðjuverkum, hvað þá af innrás frá öðrum ríkjum. En ef séð yrði fram á þörf á miklum hernaðaraðgerðum á Íslandi af einhverjum ástæðum þá yrðu viðbragðssveitir NATO komnar til landsins innan fárra daga. Ef þörf væri á enn sneggri viðbrögðum þá væru herþotur nútímans býsna snöggar að komast til Íslands.

"Ef svo færi að aðstæður breyttust þá erum við sveigjanleg. Við getum sent flugvélar aftur til Íslands," sagði Stanhope á fundi með íslenskum blaðamönnum í höfuðstöðvum NATO í Norfolk í Bandaríkjunum.

"Þetta er eitt af því sem við erum að tala um," sagði Geir Haarde, verðandi forsætisráðherra, í gær þegar þessi ummæli Stanhopes voru borin undir hann.

"Það er nokkuð ljóst að yfirstjórn Bandaríkjahers telur að forsendur séu mjög breyttar og við getum tekið undir það að mörgu leyti."

Hann segir framhald varnarviðræðnanna í undirbúningi bæði hér og í Bandaríkjunum og ýmsa möguleika í stöðunni.

Geir var spurður hvort borist hefðu einhver skilaboð frá Bandaríkjunum um framhald viðræðnanna, hvort bandarísk stjórnvöld telji yfirhöfuð um eitthvað að ræða af þeirra hálfu.

"Já, já, við höfum fengið slík skilaboð. Við höfum fengið skilaboð um hvernig eigi að klára málið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×