Erlent

Gefa sér lengri íhugunarfrest

Schüssel og Prodi  Wolfgang Schüssel Austurríkiskanslari heilsar ítalska forsætisráðherranum Romano Prodi í Vínarborg á miðvikudag, þar sem hann kom við á leiðinni á leiðtogafundinn í Brussel.
nordicphotos/afp
Schüssel og Prodi Wolfgang Schüssel Austurríkiskanslari heilsar ítalska forsætisráðherranum Romano Prodi í Vínarborg á miðvikudag, þar sem hann kom við á leiðinni á leiðtogafundinn í Brussel. nordicphotos/afp MYND/nordicphotos/afp

Eins árs "íhugunarhlé" sem leiðtogar Evrópusambandsins gáfu sér eftir að franskir og hollenskir kjósendur höfnuðu stjórnarskrársátt­málanum svonefnda í þjóðaratkvæðagreiðslum í fyrra, er nú formlega að baki. En á leiðtogafundi sem hófst í Brussel í gær munu ríkisstjórnaleiðtogar aðildarríkjanna 25 ákveða að gefa sér eins árs frest til viðbótar til að íhuga hvert framhaldið skuli verða.

Wolfgang Schüssel, kanslari Austurríkis sem nú gegnir formennskunni í ESB, lét hafa eftir sér að ætlunin væri að ákveða annars vegar að freista þess að efla samstarfið innan sambandsins á tilteknum sviðum á grundvelli gildandi sáttmála, en halda jafnframt áfram umræðu um stjórnarskrármálið.

Gegnsæi og nálægð við borgar­ana verða að sögn kanslarans höfð að leiðarljósi í þessari umræðu sem fram undan er.

Annað helsta umræðuefni leiðtoganna mun snerta frekari stækkun sambandsins, einkum þær áhyggjur sem margir íbúa eldri aðildarríkjanna virðast hafa af þeirri þróun.

"Með þessu vonumst við til að sýna að við erum að hlusta á hvað borgararnir eru að segja okkur og að við skirrumst ekki við að taka á þeim málum sem mest á þeim brenna," sagði kanslarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×