Erlent

Mestur tími fer í að ræða spillingarmál

konur í framboði Ekki eru allir jafn hrifnir af því að konur bjóði sig fram til þings í Kúveit og eru fjölmörg auglýsingaskilti skemmd.
konur í framboði Ekki eru allir jafn hrifnir af því að konur bjóði sig fram til þings í Kúveit og eru fjölmörg auglýsingaskilti skemmd. MYND/Nordicphotos/afp

Mikill órói er nú í Kúveit vegna væntanlegra þingkosninga í landinu. Kosningarnar fara fram þann 29. júní og eru sögulegar að því leyti að nú er konum í fyrsta skipti leyft að kjósa og bjóða sig fram til þings.

Búist var við að nýfenginn kosninga- og framboðsréttur kvenna yrði veigamikill í baráttunni, sem og átök um hversu langt skuli gengið í því að koma á lögum í anda Kóransins. Í kosningabaráttunni hefur hins vegar mestur tími farið í að ræða um ýmis spillingarmál og ásakanir um atkvæðakaup. Konur hafa ásakað einn frambjóðandann um að hafa borið á þær fé og reynt að múta þeim með dýrum handtöskum. Þetta tilboð til atkvæðakaupa hefur verið kallað "sigur fyrir konur" í kúveisku samfélagi.

Umbótasinnar segja slaginn vera á milli þeirra og "herbúða hinna siðspillandi", en með því eiga þeir við gömlu valdaelítuna í landinu; ríkisstjórnina og meðlimi fjölskyldu emírsins. Í herbúðum umbótasinna hafa sameinast íhaldssamir íslamistar og frjálslyndir menn sem aðhyllast vestræna stjórnarhætti.

Í látunum hafa nokkrir þingmenn umbótasinna strunsað út úr þingsal til að mótmæla nýrri kjördæmaskiptingu, sem þeir segja að gangi ekki nógu langt til að hamla gegn spillingu. Það þykja nýmæli í landinu að háskólanemar hafa verið með hávær mótmæli. Ágreiningurinn milli fylkinganna er svo djúpstæður að líklegt þykir að átökin muni setja mark sitt á kúveiskt samfélag til langframa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×