Erlent

Íslenskir flugvirkjar flytja vegna ótta

Öngþveiti Fjölmargir reyndu í gær að yfirgefa Líbanon vegna árása Ísraelshers, og myndaðist mikið öngþveiti við landamæri Líbanons og Sýrlands.
Öngþveiti Fjölmargir reyndu í gær að yfirgefa Líbanon vegna árása Ísraelshers, og myndaðist mikið öngþveiti við landamæri Líbanons og Sýrlands. MYND/AP

 Flugvirkjarnir sem eru staddir í Beirút á vegum Atlanta þurftu í gærmorgun að færa sig á hótel lengra frá flugvellinum af ótta við árásir Ísraelsmanna á flugvöllinn sem héldu áfram í gær. Aukin harka hefur færst í hernaðaraðgerðir þeirra í suðurhluta Líbanon sem hófust seinasta miðvikudag.

Mennirnir, þrír Íslendingar og Belgi, eru í Beirút vegna viðhalds á Airbus-þotu í eigu Atlanta flugfélagsins. Þeir hafa haldið kyrru fyrir á hótelherbergjum síðan árásirnar hófust, en lokað hefur verið fyrir flug og siglingar til og frá Líbanon.

Fjöldi Líbana reynir nú að yfirgefa landið og hefur mikil örtröð myndast við landamærin inn í Sýrland, einu færu leiðina út úr landinu.

Í gærkvöld höfðu alls 73 Líbanar farist í átökunum, nær allir óbreyttir borgarar, og 12 Ísraelar, þar af fjórir óbreyttir borgarar.

Þetta eru hörðustu árásir Ísraelshers gegn Líbanon í 24 ár, en herinn er að reyna að útrýma Hezbollah samtökunum í hefndarskyni, en meðlimir samtakanna tóku tvo ísraelska hermenn höndum fyrr í vikunni. Herinn gerði árásir á höfuðstöðvar samtakanna í gær og í kjölfarið lýsti Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah, yfir stríði á hendur ísraelsku þjóðinni. Jafnframt hafa meðlimir Hezbollah neitað að sleppa hermönnunum.

Utanríkisráðuneytið biður Íslendinga sem þurfa að ferðast til Mið-Austurlanda á næstunni um að sýna fyllstu gát og láta vita af ferðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×