Erlent

Þre­földun á endur­nýjan­legri orku­fram­leiðslu innan seilingar

Kjartan Kjartansson skrifar
Vindorkulundur þar sem endurnýjanleg orka er framleidd í Bretlandi.
Vindorkulundur þar sem endurnýjanleg orka er framleidd í Bretlandi. Vísir/EPA

Alþjóðlegt markmið um að þrefalda framleiðslugetu endurnýjanlegrar orku er innan seilingar, að mati Alþjóðaorkumálastofnunarinnar. Orkuframleiðslan dragi þó ekki ein og sér úr losun gróðurhúsalofttegunda sem ógnar loftslagi jarðar.

Hátt í tvö hundruð ríki samþykktu að stefna að kolefnishlutleysi í orkuframleiðslu fyrir miðja öldina á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Dúbaí í fyrra. Á sama tíma settu þau sér það markmið að þrefalda framleiðslugetu sína á endurnýjanlegri orku eins og sólar- og vindorku og tvöfalda orkunýtni fyrir lok þessa áratugs.

Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) segir það markmið innan seilingar, þökk sé hagstæðum efnahagslegum skilyrðum, framleiðslugetu ríkjanna og stefnumótun þeirra, í skýrslu sem var birt fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag. Til þess að svo verði þurfi þó að eyða flöskuhálsum sem tefji leyfisveitingar og tengingar við flutningskerfi raforku.

Þannig þurfa ríkin að byggja og endurnýja um 25 milljónir kílómetra af raflínum og auka getu sína til þess að geyma orku um 1.500 gígavött fyrir árið 2030.

Aldrei hefur losun gróðurhúsalofttegunda frá orkuframleiðslu verið meiri en í fyrra. Í skýrslu IEA segir að með því að þrefalda framleiðslu á endurnýjanlegri orku og tvöfalda orkunýtni væri hægt að minnka losunina um tíu milljarða tonna fyrir lok áratugsins.

Stofnunin varar þó við því að það hreinsi ekki sjálfkrafa til í orkubúskap mannkynsins að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Hún ein og sér dragi ekki úr notkun jarðefnaeldsneytis eða lækki orkukostnað neytenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×