Erlent

Sprengjur settar saman um borð

Eftirlit hert Flugfarþegar þurfa að una stórhertu öryggiseftirliti.
Eftirlit hert Flugfarþegar þurfa að una stórhertu öryggiseftirliti. MYND/AP

Næstu hryðjuverkaárásir á farþegaflugvélar kunna að verða framdar af mönnum sem smygla íhlutunum í sprengju um borð í sakleysislegum umbúðum svo sem fyrir barnamat eða lyfjaflöskur. Sprengjuna myndu þeir setja saman úr íhlutunum bak við luktar salernisdyr um borð í flugvélinni. Við þessu vara öryggismálasérfræðingar sem AP-fréttastofan ræddi við í gær.

Fréttin af því að breskum yfirvöldum hefði tekist að koma upp um samsæri um að sprengja í loft upp nokkrar farþegaflugvélar í einu, sem fljúga áttu frá Lundúnum til Bandaríkjanna, með sprengiefni smygluðu um borð í handfarangri, hefur vakið vangaveltur um að nú séu hafnir nýir tímar í baráttunni gegn hryðjuverkum í flugi. Tímar þegar flugfarþegar þurfa að una því að sæta klukkustunda löngu öryggiseftirliti þar sem þeir þurfa meðal annars að sýna svo ekki verði um villst að lyf sem þeir hafa meðferðis séu ósvikin. Einnig verði bannað að taka hluti eins og fartölvur eða vökva hvers konar með sér um borð.

Sprengjusérfræðingar sem AP leitaði álits hjá telja að fartölvur, farsímar, armbandsúr og hvaðeina sem gangi fyrir rafhlöðum eigi að banna að tekið sé um borð í flugvélar, ef gæta eigi fyllsta öryggis. En þeir vara við því að allar slíkar ráðstafanir munu þó sennilega ekki duga til að hindra næsta sjálfsmorðssprengjutilræði í flugi, þar sem öryggisráðstafanir lagi sig jafnan að síðustu árásum sem gerðar voru, ekki að nýjum ógnum. Staðráðnir hryðjuverkamenn finni alltaf glufurnar í því öryggiskerfi sem komið sé upp á hverjum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×