Erlent

Glíma um fé til EFTA

Evrópumál Svisslendingar vilja ekki lengur greiða fullan hluta sinn af rekstrarkostnaði Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, að því er segir í frétt norsku fréttastofunnar NTB í viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv.

Joseph Deiss, sem þar til fyrir skemmstu var viðskiptaráðherra Sviss, kvað hafa viðrað þessar óskir svissneskra stjórnvalda um breytta deilingu rekstrarkostnaðar EFTA á ráðherrafundi EFTA á Höfn í Hornafirði í lok júní. En þetta útspil Svisslendinga er fyrst núna komið upp á yfirborð umræðunnar, og kallar á viðbrögð í hinum EFTA-löndunum, Íslandi, Noregi og Liechtenstein.

Þessar óskir Svisslendinga setja í uppnám málamiðlun sem samið var um árið 1995, eftir að Svisslendingar ákváðu að taka ekki þátt í EES-samstarfinu. Þá vildu Íslendingar og Norðmenn að aðalskrifstofa EFTA yrði flutt frá Genf til Brussel, þar sem meginhluti starfsemi EFTA tengdist EES-samstarfinu. Á það vildu Svisslendingar ekki fallast, svo lendingin varð sú að skrifstofunni var skipt í tvennt. Svisslendingar greiddu þó hlutfallslega stærri hluta kostnaðarins, enda fengu þeir að senda áheyrnarfulltrúa á ýmsa fundi sem tengdust EES-samstarfinu við Evrópusambandið, sem gerði Svisslendingum kleift að fylgjast náið með ýmsum málum sem vörðuðu einnig þeirra hagsmuni á innri markaði Evrópu.

Nú hefur sú breyting orðið á að Sviss hefur gert eigin tvíhliða samninga við Evrópusambandið, sem ná að vísu ekki yfir eins vítt svið og EES-samningurinn en hafa nú leitt til þessara óska um að lækka fjárframlagið til EFTA.

„Í stórum dráttum vilja Svisslendingar borga fyrir það sem EFTA gerir í Genf, en ekki í ­Bruss­el­,“ segir í frétt NTB.

Víst þykir að ætli Svisslendingar að halda þessum kröfum til streitu geri Íslendingar og Norðmenn aftur kröfu um að öll EFTA-skrifstofan verði flutt til Brussel, enda augljós sparnaður sem fengist fram með því. NTB hefur eftir Antoni Egger, næstæðsta fulltrúa Sviss á EFTA-skrifstofunni í Genf, að stjórnin í Bern standi fast á því að framlag Sviss til EFTA verði tekið til gagngerrar endurskoðunar í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×