Maður á fimmtugsaldri, sem grunaður var um að hafa rænt austurrískri skólastúlku fyrir átta árum og haldið nauðugri heima hjá sér, fyrirfór sér með því að kasta sér fyrir járnbrautarlest í Vínarborg í fyrradag, skömmu eftir að stúlkan komst í hendur lögreglu.
Að sögn talsmanns austurrísku lögreglunnar, Armin Halm, fannst stúlkan í garði norðaustur af Vínarborg í fyrradag. Hún sagðist vera Natascha Kampusch, en hennar hafði verið saknað síðan hún hvarf á leið til skóla í Vínarborg 2. mars 1998. Niðurstöðu úr DNA-rannsókn er að vænta í dag en ættingjar stúlkunnar hafa þegar borið kennsl á hana.
Kampusch var tíu ára þegar hún hvarf og leitin að henni var sú víðtækasta í nokkru mannhvarfsmáli fyrr og síðar í Austurríki. Systir Kampusch sagði í sjónvarpsviðtali að móðir þeirra hefði fengið áfall við tíðindin. Hún hefði aldrei tapað trúnni á að dóttirin týnda væri á lífi.
Margt er enn á huldu um atburðarás miðvikudagsins, en í austurrískum fjölmiðlum var greint frá því að áttræður maður hefði fundið stúlkuna í húsagarði. Hún hafi verið fáklædd, horuð og föl og í miklu uppnámi.
Halm sagði að vegabréf Kampusch hefði fundist í húsi meints mannræningja hennar í bænum Strasshof, norðaustur af Vín. Sá hefði kastað sér fyrir lest, skömmu eftir að stúlkan fannst. Maðurinn var sagður heita Wolfgang Priklopil.
Halm sagði stúlkuna hafa gist á öruggum stað í nærveru sálfræðiþjálfaðrar lögreglukonu. Yfirheyrslur héldu áfram yfir henni í gær. APA-fréttastofan hefur eftir Erich Zettler hjá lögreglunni að stúlkan virtist þjást af Stokkhólms-heilkenninu á háu stigi, en með því er átt við þegar gísl fer að halda með fangara sínum.