Georg Bruner, 74 ára þýskur heildsali, fannst látinn heima hjá sér í Berlín í gær. Svo virðist sem hann hafi framið sjálfsmorð. Hann hafði orðið uppvís að því að selja gamalt kjöt í stórum stíl til 2.500 fyrirtækja í Þýskalandi og 50 að auki í Austurríki, Hollandi og fleiri nágrannaríkjum.
Sextíu tonn af kjöti voru gerð upptæk og var kjötið allt komið fram yfir síðasta söludag. Sumt kjötið var orðið ónothæft fyrir fjórum árum. Lögreglan segir að Bruner hafi keypt útrunnið kjöt í stórum stíl, geymt það og síðan selt til viðskipta vina sinna.