Erlent

Segir af sér og fer í áfengismeðferð

Mark Foley
Mark Foley

Tekið er að hitna undir Denis Hastert, leiðtoga repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, vegna gagnrýni eigin flokksmanna á hvernig hann hefur tekið á hneykslismáli þingmannsins Marks Foley.

Foley, sem sagði skyndilega af sér þingmennsku í lok síðustu viku, hefur innritast á meðferðarstofnun fyrir áfengissjúklinga. Hann sætir lögreglurannsókn vegna tölvusamskipta við vikapilta á Bandaríkjaþingi. Foley hafði sent piltunum, sem eru á unglingsaldri, ýmis dónaleg skilaboð.

„Ég trúi því fastlega að ég sé áfengissjúklingur og hef fallist á nauðsyn þess að gangast þegar í stað undir meðferð við áfengissýki og öðrum hegðunarvandkvæðum,“ sagði Foley í yfirlýsingu, sem hann sendi frá sér á mánudag.

„Ég iðrast sárt og tek á mig fulla ábyrgð á þeim skaða sem ég hef valdið,“ sagði einnig í yfirlýsingunni.

Demókratar á þinginu segja að flokksfélagar Foleys hafi hugsanlega vitað af athæfinu mánuðum saman án þess að gera neitt í málinu. Þess í stað hafi Hastert, sem er þingforseti fulltrúadeildarinnar, lagt allt kapp á að halda málinu leyndu svo repú­blikanar tapi ekki þingsætinu í kosningum í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×