Erlent

Seinni meðgöngur erfiðari

Heilbrigð meðganga. Konur sem þyngjast um of á meðgöngu geta átt von á frekari erfiðleikum í síðari meðgöngum.
Heilbrigð meðganga. Konur sem þyngjast um of á meðgöngu geta átt von á frekari erfiðleikum í síðari meðgöngum.

Konur sem þyngjast um of á meðgöngu og eiga erfitt með að tapa aukakílóunum aftur, geta átt von á fjölmörgum fylgikvillum og vandamálum í síðari meðgöngum, segir í nýrri sænskri rannsókn sem birt var í læknatímaritinu Lancet sem fréttavefur BBC fjallar um.

„Tiltölulega lítil þyngdaraukning milli þungana getur leitt til alvarlegra sjúkdóma,“ sagði Eduardo Villamor, einn læknanna sem leiddu rannsóknina.

Nokkur aukakíló, jafnvel meðal kvenna sem ekki eiga við offituvandamál að stríða, geta haft gríðarlega mikið að segja. Ef konur eru nokkrum kílóum þyngri eftir fæðingu fyrsta barns síns en þær voru fyrir þungun, aukast líkurnar á of háum blóðþrýstingi, sykursýki og andvana fæðingum í síðari meðgöngum, kemur fram í rannsókninni.

Sérfræðingarnir hafa miklar áhyggjur af niðurstöðunum vegna sívaxandi offituvandamáls heimsins. Miðað við þróunina undanfarið, má gera ráð fyrir að tveir þriðjuhlutar kvenna í vestræna heiminum verði of þungar eða þjáist af offitu árið 2010.

Eitt hundrað og fimmtíu þúsund sænskar konur tóku þátt í rannsókninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×