Erlent

Fræg blaðakona myrt í Rússlandi

Anna politkovskaja var þekkt fyrir harða gagnrýni sína á aðgerðir stjórnar Pútíns Rússlandsforseta.
Anna politkovskaja var þekkt fyrir harða gagnrýni sína á aðgerðir stjórnar Pútíns Rússlandsforseta.

Rússnesk blaðakona, sem var þekkt fyrir harða gagnrýni sína á stjórn Pútíns Rússlandsforseta, fannst myrt í gær. Anna Politkovskaja, 48 ára og tveggja barna móðir, fannst skotin til bana í lyftu fjölbýlishúss í Moskvu með byssu og fjögur skothylki við hlið sér. Lögregla telur að morðið tengist vinnu hennar.

Politkovskaja var þekkt fyrir fréttir sínar um morð, pyntingar og barsmíðar rússneskra hermanna á almennum borgurum. Hún skrifaði einnig gagnrýna bók um aðgerðir stjórnar Pútíns í Tsjetsjeníu og misþyrmingar hermanna á borgurum sem þar fóru fram.

Árið 2004 fékk Politkovskaja slæma matareitrun eftir að hafa drukkið te í flugvél á leið í barnaskóla í suðurhluta Rússlands. Samstarfsmenn hennar grunaði að eitrað hefði verið fyrir henni. Henni bárust einnig fjölmargar morðhótanir vegna fréttaskrifa sinna.

Rússland er orðið eitt hættulegasta land í heimi fyrir blaðamenn. Tuttugu og þrír blaðamenn voru myrtir í landinu á árunum 1996 til 2005. Að minnsta kosti í tólf tilvikum bendir til að um leigumorð hafi verið að ræða síðan Pútín komst til valda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×