Erlent

Staðfesta að Norður-Kórea sprengdi kjarnorkusprengju

Hlaupið í skjól Vegfarendur í Seúl hlaupa í skjól í hervarnaræfingu, sem efnt var til í gær. Slíkar æfingar eru haldnar reglulega einu sinni í mánuði til að minna landsmenn á að enn ríkir þar stríðsástand.
Hlaupið í skjól Vegfarendur í Seúl hlaupa í skjól í hervarnaræfingu, sem efnt var til í gær. Slíkar æfingar eru haldnar reglulega einu sinni í mánuði til að minna landsmenn á að enn ríkir þar stríðsástand. MYND/AP

Rannsókn á loftsýnum, sem tekin voru í síðustu viku, staðfesta að Norður-Kóreumenn gerðu í raun tilraun með kjarnorkusprengju neðanjarðar, eins og þeir hafa sjálfir haldið fram.

Bandarískir leyniþjónustumenn framkvæmdu rannsóknina en John Negroponte, yfirmaður bandarískra leyniþjónustu­stofnana, skýrði frá niðurstöðunum í gær.

Um helgina samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun þar sem tilraunin var fordæmd og jafnframt ákveðið að beita Norður-Kóreu refsiaðgerðum, án þess þó að hóta hervaldi.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ætlar að bregða sér til Suður-Kóreu, Kína og Japans nú í vikunni til þess að ræða framkvæmd refsiaðgerðanna, sem meðal annars fela í sér að eftirlit verður með öllum vöruflutningum til og frá Norður-Kóreu.

Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, skýrði frá því í gær að kínverskir tollverðir væru nú þegar byrjaðir að framkvæma slíkt eftirlit við landamæri Norður-Kóreu.

Stjórnvöld í Japan og Ástralíu skýrðu síðan í gær frá því að þau myndu hugsanlega grípa til harðari refsiaðgerða en tilgreindar eru í ályktun öryggisráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×