Erlent

Fjöldahandtökur í Moskvu

Pappírarnir athugaðir Lögreglumaður skoðar skilríki manna á Kijevsky-markaðnum í suðvesturhluta Moskvu.
Pappírarnir athugaðir Lögreglumaður skoðar skilríki manna á Kijevsky-markaðnum í suðvesturhluta Moskvu. MYND/AP

Lögregla gerði á þriðjudag rassíu á útimarkaði í Moskvu og handtók tugi bakara, smákaupmanna og aðra sem flutt hafa frá fátækum fyrrverandi Sovétlýðveldum til rússnesku höfuðborgarinnar til að finna vinnu. Rassían er liður í herferð rússneskra yfirvalda gegn ólöglegum innflytjendum, en til hennar var efnt eftir að Rússar hófu að vísa úr landi Georgíumönnum. sem störfuðu í Rússlandi án tilskilinna pappíra og leyfa.

Þessar aðgerðir gegn Georgíumönnum í Rússlandi voru liður í viðbrögðum rússneskra stjórnvalda við því að georgísk yfirvöld héldu föngnum til skamms tíma fjórum Rússum sem sakaðir voru um njósnir í Georgíu. Í þessum aðgerðum hafa hundruð Georgíumanna verið fluttir nauðugir úr landi og búðum þeirra og veitingahúsum lokað.

Vladimír Pútín gaf í byrjun október út þau fyrirmæli, að tekið skyldi til „hertra aðgerða til að bæta viðskipti á heildsölu- og smásölumarkaði, í því skyni að vernda hagsmuni rússneskra framleiðenda og almennings, hins innfædda almennings.“

Talsmenn mannréttindasamtaka gagnrýndu þessi ummæli forsetans og sögðu þau bera vott um útlendingahatur. Auk þess myndi það ekki leysa neinn vanda að vísa þessum útlendingum úr landi. Nær væri að skera upp herör gegn spilltri lögreglu, sem tæki „verndargjöld“ af útlendingum sem ynnu í landinu án tilskilinna leyfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×