Hálf öld er í dag liðin frá því uppreisnin gegn kommúnistastjórninni í Ungverjalandi hófst. Ungverjar minnast þessara viðburða, og í gær var meðal annars hátíðarsamkoma í ríkisóperunni í Búdapest sem þjóðarleiðtogar frá fjölmörgum ríkjum tóku þátt í. Meðal þeirra var Ólafur Ragnar Grímsson frá Íslandi.
Pólitískar deilur samtímans í Ungverjalandi setja stóran svip á hátíðahöldin. Meðal annars hafa stjórnarandstæðingar og samtök gamalla hermanna tekið höndum saman um að hunsa alla viðburði sem Ferenc Gyurcsany forsætisráðherra tekur þátt í.
Laszlo Solyom, forseti Ungverjalands, gagnrýndi þetta í ræðu sem hann flutti í ríkisóperunni í gær og sagði mótmælin ala á sundrungu.
Fólk er ekki bara að halda upp á þetta hvert í sínu lagi, heldur er það að halda upp á mismunandi hluti. Nú er í tísku að segja að árið 1956 hafi verið mörg ár, og þar með er gildi og mikilvægi ársins orðið afstætt, sagði hann.
En ég segi að það hafi aðeins ein bylting verið gerð árið 1956, bætti hann við og var þessum orðum ákaft fagnað.
Námsmenn og verkamenn í Ungverjalandi hófu uppreisn gegn leppstjórn Sovétríkjanna þann 23. október árið 1956, en sú uppreisn var barin niður með aðstoð sovéska hersins fáeinum vikum síðar.