Erlent

Sex ríkja viðræður byrja á ný

Fulltrúar sex ríkja Myndin er tekin í september á síðasta ári þegar þeir Alexander Alexejev frá Rússlandi, Kenichiro Sasae frá Japan, Wu Dawei frá Kína, Christopher Hill frá Bandaríkjunum, Kim Kye Gwan frá Norður-Kóreu og Song Min-Soon frá Suður-Kóreu hittust í Beijing í Kína.
Fulltrúar sex ríkja Myndin er tekin í september á síðasta ári þegar þeir Alexander Alexejev frá Rússlandi, Kenichiro Sasae frá Japan, Wu Dawei frá Kína, Christopher Hill frá Bandaríkjunum, Kim Kye Gwan frá Norður-Kóreu og Song Min-Soon frá Suður-Kóreu hittust í Beijing í Kína. MYND/AP

 George W. Bush Bandaríkjaforseti fagnaði því í gær að samkomulag hefði náðst um að Norður-Kóreumenn sneru aftur að samningaborði sex ríkja um takmörkun kjarnorkuvopna. Bush sagði Kínverja eiga stærstan þátt í því að samkomulag um þetta hefði tekist.

Christopher Hill, einn af aðstoðarutanríkisráðherrum Bandaríkjanna, sagði að viðræðurnar gætu hafist í nóvember eða desember.

Norður-Kóreumenn hafa neitað að mæta til viðræðnanna frá því Bandaríkjamenn ákváðu síðasta haust að refsa þeim fyrir meinta hlutdeild þeirra í skjalafölsun og peningaþvætti. Þessar refsi-aðgerðir höfðu þau áhrif að Norður-Kórea einangraðist frá fjármálakerfi heimsins.

Bandaríkjastjórn lét loks undan kröfum Norður-Kóreumanna og samþykkti í það minnsta að ræða þessar refsiaðgerðir á fundunum, en Bush sagði í gær að Bandaríkin myndu krefjast þess að stjórn Norður-Kóreu féllist á að hætta við öll kjarnorkuvopnaáform og jafnframt að hægt yrði að sannreyna það.

Þátttakendur í viðræðunum eru fulltrúar frá Norður- og Suður-Kóreu, Bandaríkjunum, Rússlandi, Kína og Japan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×