Erlent

Vændishúsum lokað í Osló

Húsleit gerð Norska lögreglan gerði húsleit í fjölmörgum húsum í Osló í gær og lokaði minnst tveimur vændishúsum. Myndin tengist fréttinni ekki.
Húsleit gerð Norska lögreglan gerði húsleit í fjölmörgum húsum í Osló í gær og lokaði minnst tveimur vændishúsum. Myndin tengist fréttinni ekki.

Noregur Norska lögreglan lokaði í gær vændishúsum og gerði húsleit í fjölmörgum eignum 51 árs gamals Norðmanns, sem allar eru í Osló. Að sögn lögreglu voru vændishús rekin í að minnsta kosti tveimur þeirra, kemur fram í frétt Aftenposten af málinu.

Eigandinn, Leif Hesle, var handtekinn og færður til yfirheyrslu, en hann er grunaður um aðild að vændisrekstrinum, sem og stórfelld skattsvik.

Alls var húsleit gerð í tíu til tólf eignum, en Hesle hefur á fáeinum árum orðið einn umfangsmesti fasteignafjárfestir Noregs. Sjálfur hefur hann sagst eiga allt að 300 eignir í útleigu. Auk Hesle voru þrír aðrir karlmenn og ein kona handtekin og færð til yfirheyrslu í tengslum við málið.

Alls tóku yfir 100 lögreglumenn þátt í húsleitunum og voru sumir þeirra sendir frá Danmörku, því talið er að vændiskonurnar hafi komið til Noregs í gegnum Danmörku, að sögn Iver Stensrud hjá Oslóarlögreglunni. Jafnframt voru starfsmenn skattstjóra Noregs með í för.

Lögregla telur að minnst 20 konur hafi starfað við vændi í húsunum. Flestar eru þær frá Nígeríu og eru löglega í landinu með þriggja mánaða ferðamannaáritun. Þær gætu verið fórnarlömb mansals, kom fram í máli Stensruds, sem sagði jafnframt að forsvarsmenn vændishúsanna auglýstu reglulega á internetinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×