Bandaríska varnarmálaráðuneytið, með Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra í fararbroddi, ætlar að vinna markvisst að því að bæta álit almennings á ráðuneytinu og boðar ný vinnubrögð sem felast í því að „bregðast við með hraði“ hvenær sem gagnrýnisraddir varpa neikvæðu ljósi á starfsemi ráðuneytisins.
Dorrance Smith aðstoðarráðherra, sem ber ábyrgð á almannatengslum ráðuneytisins, segir í minnisblaði sem AP-fréttastofan hefur í fórum sínum að nýir starfshópar fái það verkefni að semja skilaboð til fjölmiðla þar sem leiðréttingum verði komið á framfæri.
Annar hópur fær það verkefni að samhæfa „staðgengla“, og er þar væntanlega átt við háttsetta stjórnmálamenn sem tala máli ráðherrans eða sinna erindum fyrir hann.
Svo virðist sem helsta markmið þessara nýju vinnubragða sé að vinna á móti gagnrýni sem æ oftar beinist að Rumsfeld ráðherra vegna Íraksstríðsins.
Rumsfeld hefur undanfarið kvartað undan því að fjölmiðlar beini athyglinni um of að neikvæðum fréttum frá Írak en fjalli lítið um þann árangur, sem náðst hefur. Hann hefur meðal annars sagst vera andvaka á nóttinni út af því hve vel hryðjuverkamönnum hefur tekist að hafa áhrif á fjölmiðla.