Erlent

Vilja sýna hernaðarmátt sinn

„Vonum að þeir skilji skilaboðin“
Opinber fréttastofa Írans sendi frá sér í gær þessa mynd af tilraunaskotum með nýjar tegundir af flugskeytum.
„Vonum að þeir skilji skilaboðin“ Opinber fréttastofa Írans sendi frá sér í gær þessa mynd af tilraunaskotum með nýjar tegundir af flugskeytum. MYND/AP

Yfirmenn íranska hersins skýrðu frá því í gær að tilraunir hefðu verið gerðar á fimmtudaginn með þrjár nýjar tegundir af flugskeytum við Persaflóa og þær tilraunir hafi tekist mjög vel.

„Tilraunir þessar eru ekki ógn við neitt af nágrannaríkjum okkar,“ sagði Ali Fazli, herforingi í íranska hernum. Engu að síður segja Íranar að nýju flugskeytin styrki hernaðarmátt landsins við Persaflóa.

„Við viljum sýna óvinum okkar utan þessa heimshluta fælingar- og varnarmátt okkar og við vonum að þeir skilji skilaboðin,“ sagði Yahya Rahim Safavi, yfirmaður hersins, á fimmtudaginn þegar fyrstu flugskeytunum var skotið á loft.

Íranar hafa áður gert tilraunir með flugskeyti en að þessu sinni virðast tilraunirnar vera beint svar við heræfingum á vegum Bandaríkjanna sem haldnar voru í vikunni á sömu slóðum. Breskir og franskir hermenn tóku einnig þátt í þeim heræfingum.

Íranar skutu flugskeytum sínum bæði frá hreyfanlegum skotpöllum við strönd Persaflóa og frá herskipum úti á Flóanum. Íranska fréttastofan sagði flugskeytin vera framleidd í Íran.

Condoleezza Rice utanríkisráðherra sagðist halda að Íranar væru að „reyna að sýna fram á að þeir séu harðir af sér“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×