Erlent

Dýrkeypt að bíða lengur

Kofi Annan Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir Kyoto-samkomulagið ganga alltof skammt.fréttablaðið/ap
Kofi Annan Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir Kyoto-samkomulagið ganga alltof skammt.fréttablaðið/ap

„Enginn getur sagt að við höfum ekki efni á að gera ekki neitt," sagði Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í ræðu sinni á loftslagsráðstefnunni í Kenía í gær.

Hann sagði greinilegt að það muni kosta miklu minna að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda núna „heldur að fást við afleiðingarnar síðar." Hann kvartaði einnig yfir „skelfilegum skorti á forystu" þegar kemur að því að ákveða næstu skref í því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

„Nú ættum við að fara að sýna meira pólitískt hugrekki" sagði hann við ráðstefnugestina í Naíróbí, en þar í salnum sátu fulltrúar frá þeim 180 ríkjum sem eru aðilar að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1992. Fulltrúi Íslands á ráðstefnunni er Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra.

Tveggja vikna ársfundi fulltrúanna lýkur á föstudag, en á fundinum liggur fyrir það verkefni að samþykkja nánari útfærslur Kyoto-bókunarinnar, en samkvæmt henni ber 35 iðnríkjum skylda til þess að draga úr, fyrir árið 2012, útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 5 prósent frá því sem var árið 1990.

Ekki er þó reiknað með að afgerandi ákvarðanir verði teknar á þessum fundi. Í Naíróbí virðast margir vera þeirrar skoðunar að bíða þurfi þess að kjörtímabil George W. Bush Bandaríkjaforseta renni út áður en raunverulegar samningaviðræður geti hafist, en þangað til eru rúmlega tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×