Sport

Auðunn og María kraftlyftingamenn ársins

Auðunn Jónsson braut stóra múra í kraftlyftingunum á síðasta ári og var kjörinn kraftlyftingamaður ársins á ársþingi Kraft á dögunum
Auðunn Jónsson braut stóra múra í kraftlyftingunum á síðasta ári og var kjörinn kraftlyftingamaður ársins á ársþingi Kraft á dögunum Mynd/Vilhelm

Auðunn Jónsson og María Guðsteinsdóttir voru kjörin kraftlyftingamenn ársins í karla- og kvennaflokki á ársþingi kraftlyftingasambands Íslands sem haldið var á dögunum. Þetta kemur fram á hinum andríka vef Stevegym.net.

Auðunn var með yfirburði í kjöri kraftlyftingamanns ársins enda voru afrek hans á síðasta ári mjög glæsileg. Hann varð bæði fyrsti Íslendingurinn til að taka 300 kíló í bekkpressu og fyrstur til að rjúfa 1100 kílóa múrinn í samanlögðu. Jón Bóndi Gunnarsson varð annar í kjörinu og afrekaði hann það að verða heimsmeistari öldunga síðla árs. Þriðji varð svo hinn hrikalegi Benedikt Magnússon sem setti Íslandsmet í réttstöðulyftu á Íslandsmótinu í kraftlyftingum og bætti svo um betur með því að setja heimsmet í greininni fyrir skömmu - reyndar hjá öðru sambandi.

Í kvennaflokki var María Guðsteinsdóttir í algjörum sérflokki, en hún varð meðal annars fyrst íslenskra kvenna til að verða Norðurlandameistari í kraftlyftingum og þá varð hún fyrst íslenskra kvenna til að komast yfir 200 kílóa múrinn í réttstöðulyftu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×