Viktor Jútsjenkó, forseti Úkraínu, minntist einnig í gær fórnarlamba kjarnorkuslyssins og bauð fjölskyldum þeirra auknar bætur. Hversu miklar þær verða, sagði hann þó ekkert um. Minningarathöfnin var haldin nærri kjarnakljúfnum sem slysið varð í og hefur 26. apríl verið yfirlýstur sorgardagur í Úkraínu.
Engar áreiðanlegar tölur eru til yfir það hversu margir hafa látið lífið vegna slyssins. Sameinuðu þjóðirnar áætla að tala látinna sem beinlínis tengjast slysinu sé um 9.000 manns en í skýrslu Grænfriðunga er áætlað að sé allt talið, krabbamein og allir sjúkdómar sem orsakast hafi af kjarnorkumenguninni, nálgist talan 220 þúsund mannslífa.
