Erlent

Illa gengur að stilla til friðar í Austur-Tímor

Xanana Gusmao, forseti Austur-Tímor.
Xanana Gusmao, forseti Austur-Tímor. MYND/AP

Illa gengur að koma á friði í Austur Tímor eftir að forsætisráðherrann rak 600 hermenn sem höfðu hafið verkfall. Átökin hafa kostað alls 27 manns lífið.

Um tvö þúsund hermenn frá Nýja-Sjálandi komu til Austur-Tímor í morgun til að reyna að stemma stigu við þeim átökum sem verið hafa í landinu undanfarið. Hernaðaryfirvöld í Ástralíu gera ráð fyrir að ástralskir friðargæsluliðar verði á Austur-Tímor í allt að sex mánuði.

Átök brutust út í landinu eftir að Mari Alkatiri forsætisráðherra rak sex hundruð hermenn úr stjórnarhernum eftir að þeir kvörtuðu undan því að hermönnum úr vesturhluta landsins væri mismunað og ætluðu þeir því í verkfall.

Xanana Gusmao, forseti Austur-Tímor, tók í gær yfirstjórn hersins í sínar hendur en yfirstjórn hans á lögum samkvæmt að vera í höndum forsætisráðherra. Þessu neitar forsætisráðherrann, varnar og öryggismál heyri enn undir ríkisstjórnina og að hann sé enn höfuð hennar. Utanríkisráðherra Austur-Tímor, hefur hins vegar staðfest að Gusmao fari alfarið með yfirstjórn hermála í samráði við ástralska friðargæluliðið í landinu.

Verst er ástandið í höfuðborginni Dili, en þar hafa flokkar ribbalda gengið berserksgang og brennt hús fólks til grunna. Auk nýsjálensku hersveitanna sem komu til landsins í morgun eru þar fyrir hermenn frá Ástralíu og Malasíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×