Erlent

Fjölmiðlar vöktu athygli á fjöldamorðunum

Bandarísk stjórnvöld tóku ekki að rannsaka fjöldamorðin óhugnanlegu í Haditha í Írak að neinu ráði fyrr en fjölmiðlar vöktu athygli á þeim. Niðurstöður rannsóknarinnar verða gerðar opinberar þegar þær liggja fyrir.

Fjöldamorðin í bænum Haditha í Vestur-Írak voru framin í nóvember í fyrra en kveikjan að þeim var sprengjutilræði sem bandarískur herforingi lét lífið í. Sjónarvottar segja að í kjölfarið hafi félagar mannsins farið hús úr húsi í bænum og skotið á allt sem fyrir varð, þar á meðal kornabörn og farlama gamalmenni. Þegar yfir lauk lágu 24 í valnum, allt óbreyttir borgarar. Landgönguliðarnir gáfu þá skýringu að þeir sem féllu hafi ýmist dáið í sjálfu tilræðinu eða verið úr hópi uppreisnarmanna. Gögn sem rannsóknarnefnd hersins hefur undir höndum sýnir hins vegar að allir Írakarnir létust af skotsárum. Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær kom fram að þetta óhugnanlega mál kom ekki inn á borð æðstu ráðamanna fyrr en fjölmiðlar bentu þeim á það.

Tony Snow, talsmaður Hvíta hússins, lofaði að niðurstöður rannsóknarinnar yrðu gerðar opinberar um leið og þær lægju fyrir. Bush Bandaríkjaforseti hét í dag að hörðum refsingum yrði beitt verði hermennirnir sem í hlut eiga sakfelldir. Þeir hafa allir verið leystir frá störfum á meðan rannsóknin fer fram. Írösk stjórnvöld ætla sjálf að rannsaka morðin en íraskur almenningur virðist ekki í neinum vafa um sekt landgönguliðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×