Erlent

Tilbúnir til viðræðna

Bandaríkjamenn segjast reiðubúnir til að hefja beinar viðræður við Írana um kjarnorkuáætlun þeirra en útiloka ekki að beita hervaldi fari samningar út um þúfur.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Condoleezzu Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna í dag en fram til þessa hafa Bandaríkjamenn látið aðrar þjóðir um að ræða við Írana um kjarnorkumálin. Ekkert stjórnmálasamband hefur raunar verið á milli Teheran og Washington frá klerkabyltingunni 1979 og því er um umtalsverða stefnubreytingu að ræða. Tilboðið er þó háð því að Íranar láti samstundis af auðun úran en geri þeir það bíða þeirra skýrir valkostir.

Ástæða þessara umskipta er vafalaust sú að bandarísk stjórnvöld vilja sýna að þeim sé alvara með að leysa þessa alvarlegu deilu eftir diplómatískum leiðum en sé ekki einungis að leita að átyllu til að ráðast á Íran. Rice ítrekaði þó að ákvörðunin þýddi ekki að valdbeiting væri þar með útilokuð, heldur væru allir kostir ennþá uppi á borðinu. Hún hnykkti jafnframt á því að engin teikn væru á lofti um að fullt stjórnmálasamband á milli ríkjanna yrði tekið upp í bráð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×