Erlent

Lögleyfing heróíns gefur góða raun í Sviss

Nýjum sprautufíklum í Zürich hefur snarfækkað eftir að yfirvöld fóru sjálf að láta heróínneytendum efnið í té og útvega þeim aðstöðu til að sprauta sig.

Læknatímaritið Lancet birti í morgun rannsókn sína á svissnesku tilrauninni sem svo hefur verið nefnd en um niðurstöður hennar mátti meðal annars lesa um í breska blaðinu Independent. Þar er rakið hvernig yfirvöld í Zürich í Sviss tóku á stöðugt vaxandi heróínvandamáli í borginni sem náði hámarki um 1990 þegar að meðaltali tveir nýir sprautufíklar á dag bættust í hóp þeirra sem fyrir voru. Verst var ástandið í námunda við lestarstöðina, í hinum alræmda Nálagarði. Árið 1991 var hins vegar ákveðið að gefa sprautufíklum kost á að skrá sig hjá læknum til að fá afhent heróín, meþadon og hreinar nálar og jafnframt var komið upp sérstakri aðstöðu fyrir þá til að sprauta sig. Niðurstöður Lancet-skýrslunnar eru mjög athyglisverðar: Þótt þeir sem enn noti heróín séu háðir því lengur nú en áður hefur orðið áttatíu og tveggja prósenta fækkun á nýjum heróínfílkum. Glæpum hefur jafnframt fækkað svo og dauðsföllum eftir of stóra eiturskammta. Svissneskir læknar skýra þetta með því að við breytinguna hafi ímynd heróínsins breyst í að vera lyf handa fársjúku fólki og þar með hafi eitrið misst aðdráttarafl sitt fyrir ungt fólk sem að öðrum kosti hefði ánetjast því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×