Erlent

Serbía lýsir brátt fyrir sjálfstæði

Júgóslavía heyrir sögunni til í næstu viku þegar Serbía, síðast lýðveldanna, lýsir opinberlega yfir sjálfstæði. Aðeins Svartfjallaland og Serbía eru eftir af því lýðveldum sem Júgóslavía eitt sinn var en landið samanstóð af Slóveníu, Bosníu-Herzegovinu, Króatíu, Makedóníu, Albaníu, Svartfjallalandi og Serbíu. Stjórn Svartfjallalands ætlar á næstu dögum að lýsa formlega yfir sjálfstæði frá Serbíu og standa samningaviðræður um málið nú yfir á milli stjórnarinnar í Belgrad, höfuðborgar Serbíu og ráðamanna í Podgorica, höfuðstaðs Svartfjallalands. Í næstu viku er síðan búist við að Serbía lýsi yfir sjálfstæði. Ráðamenn í Serbíu hafa síðustu daga setið á fundum og rætt gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir landið. Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu, telur að hægt verði að ljúka gerð stjórnarskrárinnar innan mánaðar verði ekki óvæntar tafir. Síðan verður hún borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu og þarf helmingur kjósenda að samþykkja hana svo hún teljist gild. Kostunica hefur óbeint viðurkennt úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Svartfjallalandi á dögunum en á þingi í gær vék hann sér undan spurningum um hvort hann ætlaði ekki að óska Svartfellingum til hamingju. Svartfellingar eru þó ekki allir sammála um ágæti þess að slíta sig frá Serbíu og er stór hluti fylgjandi því að vera áfram hluti af ríkinu. En hvað sem því líður er víst að saga Júgóslavíu er brátt öll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×