Erlent

Tilboð sem á að fá Írana til að hætta auðgun úrans

Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, er kominn til Írans með tilboð frá vesturlöndum, sem á að fá Írana til að hætta við auðgun úrans.

Tilboðið sem Solana hefur í farteskinu, hefur ekki verið gert opinbert. Frumdrög að því benda hinsvegar til þess að ef Íranar fallist á að hætta auðgun úrans muni þeir fá aðstoð við að reisa kjarnorkuver, þeim verði tryggt eldsneyti og þeir fái að kaupa evrópskar Airbus flugvélar.

Bandaríkin bættu í pottinn með því að aflétta ýmsum viðskiptahömlum af Íran, meðal annars heimila þeim að kaupa Boeing farþegaþotur og varahluti í vélar af þeirri tegund, sem þeir eiga þegar. Í tilboðinu er hinsvegar einnig að finna hótun um að ef Íranar haldi áfram að auðga úran, muni öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkja refsiaðgerðir.

Viðbrögð Írana hafa verið misvísandi. Æðsti leiðtogi þeirra, klerkurinn Ali Khameini hefur hótað að trufla olíuframleiðslu, ef Íran verður beitt viðskiptaþvingunum. Mahmóud Ama-dine-jad, forseti landsins hefur hinsvegar fagnað komu Solanas og lofar því að tilboð vesturlanda verði skoðað vandlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×