Erlent

Flýðu heimili sín vegna aukinnar virkni í Merapi

MYND/AP

Yfir fimmtán þúsund íbúar í þorpum í kringum eldfjallið Merapi í Indónesíu flýðu í morgun heimili sín vegna vaxandi eldvirkni í fjallinu. Merapi hefur látið á sér kræla undanfarnar vikur en í morgun spúði fjallið kröftuglega og mátti sjá voldugt öskuský standa upp úr gígnum. Vísindamenn útiloka ekki að jarðskjálftinn sem varð á Jövu í síðustu viku hafi aukið virkni í fjallinu en þeir fylgjast nú grannt með framvindu mála. Yfirvöld í Indónesíu hófu að flytja brott íbúa innan sjö kílómetra radíuss frá fjallinu fyrir þremur vikum en sumir hafa hingað til ekki viljað yfirgefa heimili sín vegna búhjarða sinna og uppskeru en hvort tveggja tryggir lífsafkomu íbúanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×